Ársreikningum skal skila til ársreikningaskrár innan mánaðar frá því að aðalfundur hefur staðfest hann – þó eigi síðar en átta mánuðum eftir lok reikningsárs, sem er yfirleitt 31. ágúst ár hvert.
Margir eigendur örfélaga spyrja sig hvort þeir þurfi raunverulega að útbúa hefðbundinn ársreikning. Lögum samkvæmt geta örfélög, þ.e. félög sem uppfylla ákveðin stærðarskilyrði, nýtt sér einfaldaða skýrslugjöf – svokallaðann hnapp. Þá er einungis skilað skattframtali í gegnum þjónustuvef Skattsins, og tölvukerfi Skattsins býr sjálfkrafa til einfalt rekstrar- og efnahagsyfirlit sem sent er til ársreikningaskrár.
Þessi leið getur hentað félögum sem eru með afar lítinn eða jafnvel engan rekstur. Hún er einföld, fljótleg og hagkvæm – og getur verið raunhæfur kostur í ákveðnum tilfellum.
En hvað vantar í þessa einföldu skráningu?
Hefðbundinn ársreikningur inniheldur mun ítarlegri og faglegri upplýsingar um stöðu og afkomu félagsins.
Fyrir utan að rekstrar- og efnahagsreikningurinn sjálfur getur verið mun ítarlegri þá kemur þar m.a. fram:
- Greinargerðir stjórnenda og endurskoðenda ef við á
- Sundurliðanir sem skýra betur ákveðnar fjárhæðir í rekstrar- og efnahagsreikningi
- Skýringar við ársreikning (t.d. um lán, skuldbindingar og eignir)
- Jafnvel hluthafaupplýsingar og aðrar mikilvægar fjárhagslegar og rekstrartengdar upplýsingar.
- Sjóðstreymi ef við á
Slíkur ársreikningur er ekki aðeins mikilvægur fyrir stjórnendur og eigendur félagsins – heldur getur hann einnig verið lykilskjal þegar kemur að
- Umsóknum um lán eða styrki
- Samskiptum við fjárfesta eða viðskiptaaðila
- Mat á rekstrarhæfni félagsins
- Sölu, samruna eða breytingum á eignarhaldi
Afhverju að gera ársreikninginn tímanlega?
Þótt frestur til að skila ársreikningum er til 31.ágúst hvert ár þá getur reynst mjög dýrmætt að klára ársreikninginn snemma.
Sérstaklega til að
- Forðast stress og flýtivinnu sem getur leitt til mistaka þegar skilafrestur nálgast
- Fá skýra yfirsýn yfir reksturinn áður en næsta rekstrarár er of langt liðið
- Grípa tímanlega inn í ef afkoma eða lausafjárstaða þarfnast aðgerða
- Nýta gögn ársreiknings við gerð fjárhagsáætlana eða lánabeiðna
Við mælum með hefðbundnum ársreikningi fyrir félög í virkri starfsemi
Ef félagið þitt er í reglulegum rekstri – jafnvel þótt hann sé ekki umfangsmikill – mæli ég alltaf með því að láta útbúa hefðbundinn ársreikning. Hann er faglegt verkfæri sem styrkir reksturinn þinn til framtíðar.
Ef þú vilt aðstoð við ársreikninga- og framtalsgerð þá ertu velkomin(n) að hafa samband. Ég tek að mér að útbúa ársreikninga og skattframtöl með fagmennsku í fyrirrúmi.
Hafðu samband með því að senda mér tölvupóst á harpa@seiglabokhald.is með nafni og kennitölu þíns félags og við sjáum hvort við náum saman.